Afhending á hjóli

IMG_2669

Síðastliðinn fimmtudag fór fram formleg afhending á nýja hjólinu okkar á Höfða. Í febrúar sl. var hrundið af stað formlegri söfnun fyrir hjólinu. Skemmst er frá því að segja að eftir að söfnun hófst hafði Lionsklúbburinn Eðna samband og vildi gefa íbúum á Höfða hjólið. Auk framlags Lionsklúbbsins færði Slysavarnadeildin Líf bæði fjárframlag og hjólahjálma. Einnig safnaðist töluvert í söfnunarbauka á Höfða og að lokum safnaði Andrea Björnsdóttir töluverðum fjármunum í hjólasjóðinn.

Forvígismenn að söfnun og komu hjólsins á Höfða voru María Ásmundsdóttir iðjuþjálfi og Elísabet Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari.

Með öllum þessum gjöfum safnaðist fyrir hjólinu töluvert umfram kaupverð þess sem notað verður í búnaðarkaup tengd hjólinu og viðhaldssjóð.

Við athöfnina afhenti Auður Líndal formaður Lionsklúbbsins Eðnu, Maríu Ásmundsdóttur iðjuþjálfa lykla af hjólinu. Við sama tilefni afhentu þær Hallfríður Jóna Jónsdóttir og Anna Kristjánsdóttir hjálma til notkunar á hjólinu ásamt fjárframlag frá Slysavarnadeildinni Líf.

Í ávarpi sínu við afhendinguna þakkaði Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri öllum gefendum fyrir höfðinglega gjöf.

Mikil gleði er meðal íbúa Höfða með nýja hjólið og skín bros úr andliti hvers þess sem sest hefur í hjólið og hlakkar öllum til að hjóla inn í sumarið á Höfða.