Allar færslur eftir Kjartan

Fjör á öskudaginn

IMG_0992

Líf og fjör var á öskudaginn á Höfða.  Bæði starfsfólk og íbúar tóku virkan þátt í deginum.  Í Höfðasal var kötturinn sleginn úr tunnunni og að lokum var slegið upp dansiballi.  Kosið var um flottasta hattinn og búninginn.  Kjartan Guðmundsson bar sigur úr býtum um flottasta hattinn og Elísabet  Ragnarsdóttir sjúkraþjálfari átti flottasta búninginn.

Gjöf frá Lionsklúbbnum Eðnu

Helga Atladóttir, Sigurlín Gunnarsdóttir, Soffía Ómarsdóttir, Svanhildur Thorstensen, Ellen Ólafsdóttir og Kjartan Kjartansson
Helga Atladóttir, Sigurlín Gunnarsdóttir, Soffía Ómarsdóttir, Svanhildur Thorstensen, Ellen Ólafsdóttir og Kjartan Kjartansson

 

Í gær komu Soffía Ómarsdóttir, Svanhildur Thorstensen og Ellen Ólafsdóttir úr Lionsklúbbnum Eðnu og færðu Höfða að gjöf Rubelli hægindastól og útvarp til notkunar í herbergi sem tilheyrir hvíldarinnlögn.

Hvíldarinnlögn er tímabundin dvöl í hjúkrunarrými. Dvölin er að öllu jöfnu þrjár vikur á Höfða og markmið hennar er að gera fólki kleift að búa lengur á eigin heimili.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri, Helga Atladóttir hjúkrunarforstjóri og Sigurlín Gunnarsdóttir húsmóðir veitu gjöfinni viðtöku og þökkuðu fyrir höfðinglega gjöf sem mun nýtast vel á Höfða.

Þorrablót

IMG_0839

Einn af föstum siðum á Höfða er að halda þorrablót á bóndadaginn. Þorrablótið var í hádeginu í dag og reiddi Haukur kokkur og hans konur í eldhúsinu fram sérlega glæsilegt hlaðborð þar sem boðið var upp á allar gerðir þorramats og snafs með.

Gestur Friðjónsson kom með harmonikkuna og spilaði undir borðhaldi, einnig stjórnuðu Sigurður Ólafsson og Ármann Gunnarsson fjöldasöng.

Gjöf til Höfða

IMG_0827

Í gær komu systur úr Rebekkustúkunni nr. 5 Ásgerði I.O.O.F. á Akranesi færandi hendi og afhentu Höfða að gjöf hjólalyftara frá Guldmann ásamt sex seglum.

Við móttöku í Höfðasal veitti Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri gjöfinni viðtöku úr hendi Petrínar Ottesen yfirmeistara stúkunnar að viðstöddum góðum hópi systra úr Ásgerði.

Jólaball

IMG_0795

Í gær var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var fullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega.

Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð.

Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

IMG_0772

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.
Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12.45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.
Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11.30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.
Óskum öllum landsmönnum gleðilegrar jólahátíðar.

Líf og list á Höfða

IMG_0625

Í tengslum við Vökudaga á Akranesi voru tvær sýningar opnaðar á Höfða fyrir helgi.

Fyrst ber að nefna sýninguna „Það sem augað mitt sér“ sem er ljósmyndasýning 5 ára barna í leikskólanum Garðaseli sem opnuð var á fimmtudag.

Á föstudaginn var opnuð samsýning íbúa, dagdeildarfólks og starfsfólks Höfða „Líf og list á Höfða“. Þar sem myndlist, hannyrðir og handverk eru til sýnis.

Gunnar Már Ármannsson söng nokkur lög við undirleik Valgerðar Jónsdóttir við opnunina.

Sýningin verður opin til 5.nóvember frá kl.13.00 til 16.00

Starfsaldurviðurkenningar 2014

IMG_0666

Á föstudag voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar í tengslum við opnun á sýningunni Líf og list á Höfða að viðstöddum miklum fjölda gesta. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 19 starfsmenn viðurkenningu:

Fyrir 5 ára starf: Ásdís Garðarsdóttir, Bylgja Kristófersdóttir, María Ásmundsdóttir, Ólöf Lilja Magnúsdóttir, Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir og Sigurður J. Hauksson.

Fyrir 10 ára starf: Inga Lilja Guðjónsdóttir og Marianne Ellingsen.

Fyrir 15 ára starf: Erla Sveinsdóttir, Ester Theódórsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Ingigerður Höskuldsdóttir, Marta Ásgeirsdóttir, Svanhildur Skarphéðinsdóttir og Vilborg H. Kristinsdóttir.

Fyrir 20 ára starf: Dagný Fjóla Guðmundsdóttir og Erna Kristjánsdóttir.

Fyrir 25 ára starf: Guðný Sigurðardóttir.

Fyrir 30 ára starf: Kristín Magnúsdóttir.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Kjartan sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls.

Við sama tækifæri kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða á síðustu mánuðum eftir farsælan starfsferil, þær Kristín Alfreðsdóttir starfsmaður í aðhlynningu og Lea H. Björnsdóttir starfsmaður við ræstingar. Samtals höfð þær starfað á Höfða í rúmlega 10 ár.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil þeirra. Kjartan óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld. Kristjana Helga Ólafsdóttir formaður stjórnar Höfða afhenti þeim blómvönd og litla gjöf frá Höfða.