Allar færslur eftir Kjartan

Jólaball

IMG_0795

Í gær var haldið jólaball á Höfða fyrir íbúa, starfsmenn og afkomendur. Höfðasalurinn var fullur af gestum, sá yngsti eins árs, sá elsti á tíunda áratugnum, og skemmtu sér allir konunglega.

Tveir jólasveinar komu í heimsókn og færðu börnunum poka með góðgæti. Bjórbandið spilaði gömlu góðu jólalögin og gestirnir dönsuðu kringum jólatréð.

Að balli loknu þáðu gestir veitingar í boði Höfða.

Helgihald um hátíðarnar

IMG_0772

Í morgun var Ragnheiður Guðmundsdóttir djákni með helgistund í Höfðasal þar sem börn hennar og barnabörn sungu jólasálma og léku undir, en það er árvisst að afkomendur djáknans annast tónlistarflutning í helgistund á aðfangadag.
Á annan í jólum verður hátíðarguðsþjónusta kl. 12.45 þar sem sr. Eðvarð Ingólfsson predikar og kór Akraneskirkju syngur við undirleik Sveins Arnars Sæmundssonar.
Á gamlársdag verður svo helgistund djákna kl. 11.30, en þar mun kór Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd syngja.
Óskum öllum landsmönnum gleðilegrar jólahátíðar.

Líf og list á Höfða

IMG_0625

Í tengslum við Vökudaga á Akranesi voru tvær sýningar opnaðar á Höfða fyrir helgi.

Fyrst ber að nefna sýninguna „Það sem augað mitt sér“ sem er ljósmyndasýning 5 ára barna í leikskólanum Garðaseli sem opnuð var á fimmtudag.

Á föstudaginn var opnuð samsýning íbúa, dagdeildarfólks og starfsfólks Höfða „Líf og list á Höfða“. Þar sem myndlist, hannyrðir og handverk eru til sýnis.

Gunnar Már Ármannsson söng nokkur lög við undirleik Valgerðar Jónsdóttir við opnunina.

Sýningin verður opin til 5.nóvember frá kl.13.00 til 16.00

Starfsaldurviðurkenningar 2014

IMG_0666

Á föstudag voru afhentar árlegar starfsaldursviðurkenningar í tengslum við opnun á sýningunni Líf og list á Höfða að viðstöddum miklum fjölda gesta. Að þessu sinni fengu eftirtaldir 19 starfsmenn viðurkenningu:

Fyrir 5 ára starf: Ásdís Garðarsdóttir, Bylgja Kristófersdóttir, María Ásmundsdóttir, Ólöf Lilja Magnúsdóttir, Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir og Sigurður J. Hauksson.

Fyrir 10 ára starf: Inga Lilja Guðjónsdóttir og Marianne Ellingsen.

Fyrir 15 ára starf: Erla Sveinsdóttir, Ester Theódórsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Ingigerður Höskuldsdóttir, Marta Ásgeirsdóttir, Svanhildur Skarphéðinsdóttir og Vilborg H. Kristinsdóttir.

Fyrir 20 ára starf: Dagný Fjóla Guðmundsdóttir og Erna Kristjánsdóttir.

Fyrir 25 ára starf: Guðný Sigurðardóttir.

Fyrir 30 ára starf: Kristín Magnúsdóttir.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri sagði að með þessum viðurkenningum vildi stjórn Höfða þakka þessum góðu starfsmönnum tryggð þeirra við Höfða og íbúa heimilisins. Kjartan sagði að starfsfólkið væri helsti styrkleiki Höfða og minnti á mikilvægi stöðugs vinnuafls.

Við sama tækifæri kvaddi Höfðafólk starfsmenn sem látið hafa af störfum á Höfða á síðustu mánuðum eftir farsælan starfsferil, þær Kristín Alfreðsdóttir starfsmaður í aðhlynningu og Lea H. Björnsdóttir starfsmaður við ræstingar. Samtals höfð þær starfað á Höfða í rúmlega 10 ár.

Kjartan Kjartansson framkvæmdastjóri þakkaði störf þeirra og rakti farsælan starfsferil þeirra. Kjartan óskaði þeim góðs gengis á ókomnum árum og að þau mætti njóta eftirlaunaáranna við góða heilsu og farsæld. Kristjana Helga Ólafsdóttir formaður stjórnar Höfða afhenti þeim blómvönd og litla gjöf frá Höfða.

Vökudagar á Höfða

Vokudagar

Í tilefni Vökudaga verður haldin sýning á Höfða undir yfirskriftinni Líf og list á Höfða.  Um er að ræða samsýningu íbúa, starfsmanna og dagdeildarfólks á ýmsum hannyrðum, handverki og myndlist sem orðið hefur til í áranna rás.

Sýningin verður opnuð föstudaginn 31. október kl. 17.00

Boðið verður upp á léttar veitingar og tónlist.

Sýningin verður opin til miðvikudags 5.nóvember frá kl. 13.00 til 16.00

Allir velkomnir.

Sláturgerð

IMG_0573

Í vikunni sem leið var unnið í sláturgerð á Höfða með aðkomu íbúa og starfsmanna. Tekin voru 150 slátur. Fólk var einbeitt við sláturgerðina og handtökin fagmannleg og augljóst að margir þeirra sem að sláturgerðinni stóðu hafa tekið slátur allan sinn búskap.

Létt var yfir fólki við sláturgerðina og augljóst að allir höfðu af þessu gaman. Fyrsta sláturmáltíðin var framreitt á föstudaginn, en slátrið er sívinsæll matur hjá íbúum og starfsfólki Höfða.

Yfirblandari í sláturgerðinni var sem endranær Svandís Stefánsdóttir.

Heimsókn frá Múlabæ og sólarstund

IMG_0554

Í ágúst kom hópur frá Múlabæ í Reykjavík í heimsókn til okkar og skoðaði aðstöðu dagdvalar á Höfða og drukku kaffi.

Í sumar var því miður ekki mikið um sólardaga en þegar sú gula kom úr felum var brugðið á leik úti í garði. Þar þandi Fanney nikkuna og fólk gerði sér glaðan dag.

Starfsmannaferð til Innsbruck

20140905_123945

Í síðustu viku komu 51 starfsmenn Höfða úr 5 daga fræðslu- og skemmtiferð til Austurríkis. Flogið var til München í Þýskalandi og gist þar fyrstu nóttina. Að morgni föstudags var brunað með rútu til Innsbruck í Austurríki og var hópurinn mættur í heimsókn á hjúkrunarheimilið Haus St. Josef am Inn kl. 10 um morguninn. Á móti okkur tók Dr. Christian Juranek framkvæmdastjóri heimilisins og kynnti okkur starfsemina, sýndi aðstöðuna og svaraði fjölmörgum fyrirspurnum. Á heimilinu eru um 150 íbúar. Heimsóknin var bæði fróðleg og gagnleg og mun eflaust nýtast vel til að þróa starf okkar á Höfða.

Á laugardeginu var frjáls tími sem nýttur var bæði til vettvangsferða um verslunargötur Innsbruck, auk þess sem góður hópur fór á tind Hafelekarspitze sem er í 2.334 metra hæð með aðstoð kláfa og hellulagðra stíga.

Á sunnudeginum var farið í rútuferð í gegnum Brennerskarðið yfir til Ítalíu og farið í skoðunarferð til Brixen höfuðstaðar Eisackdalsins.

Á mánudag var svo haldið heim á leið og lent í Keflavík síðdegis. Voru allir sammála um að ferðin hefði verið frábær í alla staði. Að undirbúningi og skipulagningu slíkra ferðar komu margir starfsmenn Höfða en yfirumsjón var í höndum Sigurbjargar Ragnarsdóttur. Farið var með Bændaferðum undir styrkri leiðsögn Ingu Ragnarsdóttur fararstjóra.

Nýr starfsmannafatnaður

IMG_0523

Nýr starfsmannafatnaður hefur verið tekin í notkun á Höfða.  Gamli starfsmannafatnaðurinn var kominn vel til ára sinna og úr sér genginn.  Almenn ánægja er með nýja fatnaðinn sem bæði er þægilegur og litríkur.