Músikfundur.

Í gær voru haldnir þverflaututónleikar á Höfða. Nemar úr Tónlistarskóla Akraness léku undir stjórn Patricju B.S. Mochola tónlistarkennara. Tónleikarnir voru vel sóttir og undirtektir mjög góðar.

Vel heppnaður höfðabazar.

Marianne Ellingsen bregður á leik.
Marianne Ellingsen bregður á leik.

Myndasafn

Mikil aðsókn var að Höfðabazarnum s.l. laugardag. Fjölbreytt úrval góðra muna vakti mikla aðdáun gesta og rokseldist varningurinn. Gestum var boðið upp á molakaffi og sýningu Íslandsbanka á verkum Blaðaljósmyndarafélags Íslands, sem stendur yfir á Höfða þessa dagana.

Kökukvöld.

Við borðið sjást frá vinstri: Sigríður Björnsdóttir, Elín Frímannsdóttir, Guðríður Halldórsdóttir og Steinunn Jósefsdótti. Fjær er Rakel Gísladóttir að aðstoða Helgu Indriðadóttur.
Við borðið sjást frá vinstri: Sigríður Björnsdóttir, Elín Frímannsdóttir, Guðríður Halldórsdóttir og Steinunn Jósefsdótti. Fjær er Rakel Gísladóttir að aðstoða Helgu Indriðadóttur.

Myndasafn

Hið árlega kökukvöld var haldið á Höfða í gærkvöldi. Þar koma starfsmenn með kökur og annað góðgæti að heiman og bjóða íbúum hússins til veislu. Voru veitingar sérlega glæsilegar. Margt var til gamans gert; gamanmál, tónlistarflutningur, danssýning og tískusýning þar sem heimilisfólkið var í aðalhlutverki. Þá lék Gísli Einarsson á harmonikku og stjórnaði fjöldasöng. Þessi skemmtun tókst frábærlega, var mjög vel sótt af íbúum og starfsfólki sem skemmtu sér vel. Þetta árlega boð starfsmanna lýsir vel þeim góða anda sem ríkir á Höfða og þeirri vináttu sem er milli starfsmanna og íbúa hússins.

Ljósmyndasýning á Höfða.

Í dag var opnuð á Höfða sýningin myndir ÁRSINS 2004. Sýndar eru 27 myndir frá Blaðaljósmyndarafélagi Íslands, en myndirnar voru sýndar á menningarnótt í Reykjavík s.l. sumar. Íslandsbanki stendur fyrir sýningunni sem er liður í VORDÖGUM sem standa yfir á Akranesi næstu viku.

 

Við þetta tækifæri færði Íslandsbanki Höfða að gjöf um 70 metra af brautum til að hengja á listaverk. Brautirnar verða settar upp á næstunni og munu auðvelda mjög sýningarhald á Höfða. Íslandsbanka eru færðar þakkir fyrir þessa góðu gjöf.

Skírn á Höfða.

Guðsþjónusta var haldin á Höfða í dag. Þar skírði sr. Eðvarð Ingólfsson dreng, Hafstein Þór. Langamma drengsins er Sigurveig Eyjólfsdóttir frá Skálatanga, íbúi á Höfða. Sr. Eðvarð gat þess að þetta væri fyrsta skírnin á Höfða á þessari öld, en eitt barn mun hafa verið skírt hér á síðustu öld. Sigurveigu, foreldrum barnsins og aðstandendum eru færðar bestu hamingjuóskir.

Sláturgerð.

Vinstra megin borðs: Guðný Þorvaldsdóttir, Málfríður Þorvaldsdóttir og Guðrún Jónsdóttir. Við borðsenda Guðrún Bjarnadóttir og Sjöfn Jóhannesdóttir. Hægra megin fyrir miðju Lára Gunnarsdóttir.
Vinstra megin borðs: Guðný Þorvaldsdóttir, Málfríður Þorvaldsdóttir og Guðrún Jónsdóttir. Við borðsenda Guðrún Bjarnadóttir og Sjöfn Jóhannesdóttir. Hægra megin fyrir miðju Lára Gunnarsdóttir.

Myndasafn

Í gær og í dag hafa íbúar og starfsmenn Höfða staðið í sláturgerð. Tekin voru 120 slátur. Mikill kraftur var í sláturgerðinni og fagmannleg handtök, enda margir sem tekið hafa slátur á hverju hausti í áratugi. Létt var yfir mannskapnum við sláturgerðina og greinilegt að fólk hafði gaman af þessu verkefni. Fyrsta sláturmáltíðin verður svo reidd fram á morgun.

Heimsókn frá Grensásdeild.

11 starfsmenn Grensásdeildar heimsóttu Höfða í gær. Margrét A. Guðmundsdóttir húsmóðir á Höfða tók á móti þeim, sýndi þeim heimilið og sagði frá starfseminni á Höfða. Eftir að hafa drukkið kaffi með heimamönnum kvöddu þessir góðu gestir og héldu til næsta áfangastaðar sem var Safnahúsið að Görðum.

Ásmundur kvaddur.

Frá vinstri: Áslaug Hjartardóttir, Maggi G. Ingólfsson, Guðbjörg Halldórsdóttir og Vilborg Guðjónsdóttir.
Frá vinstri: Áslaug Hjartardóttir, Maggi G. Ingólfsson, Guðbjörg Halldórsdóttir og Vilborg Guðjónsdóttir.

Myndasafn

Stjórn Höfða bauð íbúum og starfsmönnum til samsætis s.l. föstudag til heiðurs Ásmundi Ólafssyni fyrrv.framkvæmdastjóra Höfða og Jónínu Ingólfsdóttur konu hans. Sigríður Gróa Kristjánsdóttir formaður stjórnar Höfða ávarpaði Ásmund og þakkaði honum vel unnin og farsæl störf í 24 ár. Þá færði hún honum að gjöf frá Höfða málverk af Innsta-Vogi, en fjölskylda Ásmundar átti Innsta-Vog í áratugi.

 

Þá færði Ásmundur Höfða að gjöf mynd af móður sinni, Ólínu Ásu Þórðardóttur og Svövu Finsen á unglingsárum en Ólína Ása er elsti íbúi Höfða, tæplega 98 ára gömul.

 

Guðjón Guðmundsson framkvæmdastjóri Höfða þakkaði Ásmundi fyrir lipurð við framkv.stjóraskipti og hve góðu búi hann skilar.

 

Nokkrir íbúar Höfða tóku til máls og þökkuðu Ásmundi góð kynni, þau voru Elín Frímannsdóttir, Eggert B.Sigurðsson, Skúli Þórðarson og Stefán Bjarnason.

 

Þá var flutt ávarp frá Valgarði L.Jónssyni. Flutt var tónlistaratriði undir stjórn Patrycju B.S.Mochola tónlistarkennara, sem starfaði á Höfða í sumar. Boðið var upp á góðar veitingar sem Bjarni Þór Ólafsson bryti og hans fólk hafði útbúið af alkunnri snilld.

 

Í þessu kveðjuhófi kom glöggt fram sá mikli hlýhugur sem fólkið á Höfða ber til Ásmundar Ólafssonar.