Læknisþjónusta
Höfði er með samning við Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi (HVE) um læknisþjónustu. Læknir hefur fastan viðverutíma tvisvar í viku. Aðgengi að annarri sérhæfðri læknisþjónustu er veitt samkvæmt tilvísun lækna heimilisins.
Öldrunarlæknir kemur á Höfða einu sinni í mánuði.
Meðferð og forvarnir eru með hefðbundnum hætti eftir að fólk kemur á Höfða og gjarnan framhald á þeim samskiptum sem íbúar höfðu áður átt við lækna heilsugæslunnar. Bólusetningar við lungnabólgu og flensum fara fram reglulega. Læknar koma að nokkrum verkefnum sem eru unnin með reglubundnum hætti og eru teymisverkefni ss. byltuforvörnum og RAI mati.
Læknar sinna síðan vanda fólks sem óskar eftir viðtali og auk þess sinna læknar þeim málum sem hjúkrunafræðingar óska eftir að séu skoðuð. Brugðist er við bráðavandamálum eftir atvikum.
Við komu á Höfða er farið ítarlega yfir heilsufar og lyfjanotkun einstaklinga og lögð á ráðin um heilsueflingu. Reglulegt heilsufarsviðtal um almenn heilsuvandamál er síðan árlega við alla íbúa, þar sem farið er yfir hlutina og endurskoðuð lyfjameðferð ofl.
Þegar um er að ræða veikindi sem ekki er talið mögulegt að leysa úr á heimilinu er gjarnan leitað aðstoðar sérfræðinga eftir eðli vandans. Við eigum ágætt samstarf við sérfræðinga HVE og leitum iðulega ráða hjá þeim ma. öldrunarlækni. Gott samstarf er við HVE um að taka sjúklinga inn til læknisrannsókna og meðferðar þegar það á við. Við sérstakar aðstæður getur þurft að leita til sérfræðinga á læknastofum.
Íbúar fá öll lyf sem læknar ávísa sér að kostnaðarlausu. Öll lyfjanotkun og sérfræðingaþjónusta sem greidd er af Höfða þarf að vera í samráði við lækni heimilisins.
